Orrustan um Fold

orrustan_um_fold.jpgFyrir jólin kom út vísindaskáldsagan Orrustan um Fold eftir Davíð Þór Jónsson, guðfræðing, spekúlant, grínista og fyrrum ritstjóra. Sagan, sem er 1p. frásögn, segir frá þeim Kolbeini, Auði og Gissuri sem þurfa að fást við utanaðkomandi verur á tunglinu Fold sem er í kringum gasrisan Ímu, en þar hefur þjóðin búið í 47 ár. Um leið og geimverur, sem einna helst líkjast köngulóm, koma á tunglið er það samfélagsmynstur sem þjóðin, sem hefst við í borginni Fræið og var áður geimskip hennar, hefur stuðst við í molum sökum spillingar og þurfa aðalpersónurnar einnig að takast á við það. 

Í þessari sögu er þannig að finna nokkuð ákveðna samfélagsrýni og væri áhugavert að lesa úttekt bókmenntafræðinga á táknmáli sögunnar. Samfélagið er afar lagskipt og spilling ræður ríkjum í efri lögunum, en íbúar þar líta mjög niður á lýðinn. Allt er notað til að friðþæga neðri lögin, listir og miðlar óspart notaðir og ljóst að Davíð hefur lagt umtalsverða hugsun í sköpun þessa samfélags. Hin utanaðkomandi ógn reynist ekki öll þar sem hún er séð og endurspeglar kannski þannig þá ógn sem er í samfélagsskipaninni sjálfri og óttann sem virðist gegnumsýra allt.

Davíð er með góðan orðaforða og notar hann óspart. Hann er óhræddur við að grípa til gamalla orða og mig grunar að einhverjir lesendur gætu þurft að grípa til orðabóka við lestur sögunnar, t.d. er ég ekki viss um að allir lesendur viti hvað kögunarhóll sé. Þannig fannst mér stundum, þó gaman væri að sjá gömul orð notuð, sem verið væri að fara fjallabaksleiðir þegar þjóðleiðir væru færar. 

Þessi saga er heilmikil frásögn, það er oft farið um víðan völl og meira sagt en sýnt. Ég saknaði þess oft að geta ekki fengið skýrari mynd af landslagi, persónum, staðháttum og jafnvel Fræinu sjálfu. Oftar en ekki er það eina sem skilur að persónur nöfn þeirra og fyrir mig er það einfaldlega ekki nóg. Ég stóð mig oft að því að fletta fram og aftur til að átta mig betur á hvernig persónur tengdust í sögunni, því mér fannst ég ekki hafa nægilega skýra mynd af þeim. Furðuverur koma auk þess fyrir og þeim er aðeins lýst á fremur takmarkaðan máta, nokkuð sem ég tel að ritstjóri hefði getað aðstoðað Davíð með og dregið betur fram hjá honum. 

Stærsti galli sögunnar er þó hvernig leyst er úr flækjunum. Ég gat ekki komist hjá því að upplifa að þar hefði komið guðinn úr vélinni og komið þannig aðalpersónunum til bjargar í lokin, þar stígur allt í einu persóna inn á sögusviðið sem ekki hefur verið kynnt áður og gerir hetjunum kleift að sigrast á óvinum sínum. Ég verð að viðurkenna, að það olli mér nokkrum vonbrigðum. 

Heilt yfir ágætlega stílaður texti en skorti upp á myndmál og persónusköpun hefði mátt vera sterkari. Eins var endirinn svekkjandi. Gott efni og flott samfélagsrýni. 

Þorsteinn Mar, mars 2013


Hvítir múrar borgarinnar

hvtucover9.jpgHvað ætti maður að kalla Hvíta Múra Borgarinnar eftir Einar Leif Nielsen? Þessi fyrsta bók höfundar sem kom út hjá Rúnatý fyrir stuttu síðan er æsispennandi framtíðartryllir í ætt við „cyberpunk.“ Sagan kallast á við aðrar framtíðardystópíur á borð við 1984 eða „Judge Dredd“ en fjallar þó ekki um alræðisríki heldur frekar um ofur-frjálshyggjuríki framtíðarinnar. Heimsmyndin er skemmtileg, meirihluti fólks býr í „Borginni“, risavaxinni súperborg sem er lokuð af með risavöxnum hvítum múrum. Þar fyrir innan er fólk flokkað í hverfi eftir efnahagslegri getu, ríkasta hverfið nr. 10 er með glæsivillum þar sem hver gluggi og borð er sjónvarpstæki, og vinnufólk eða vélmenni sjá um að viðhalda glæsistörfum og sækja viský handa húsbóndanum. Í hverfi 1 búa svo þeir allra fátækustu, þeir sem vinna í verksmiðjunum en þar eru reglulega óeirðir sem kæfðar eru niður á harkalegan máta. Loks má nefna Dalinn en þar búa þeir sem eru útlægir frá borginni í næstum miðaldalegu samfélagi, með drottningum og hirðum.

Ég var hrifinn af grunn hugmyndafræði bókarinnar. Í heimi bókarinnar er einungis tvenns konar refsing fyrir glæpi, annars vegar dauðadómur og hins vegar sekt. Þeir sem ekki geta greitt sektina eru dæmdir til dauða, en hafi maður nægan pening getur maður greitt skaðabætur og komist upp með morð. Þetta hljómar fjarstæðukennt en ef við hugsum aftur til víkingatímans þá er þetta ekki eins óraunhæft og maður kynni að ætla. Í íslendingasögunum greiða sögupersónur oft bætur fyrir víg, og hefndir fara yfirleitt af stað þegar fólk telur bæturnar of lágar. Mismikið er greitt eftir hvort það er bóndi, höfðingi eða þræll.

Þannig virkar veröldin sem Einar bregður upp fyrir okkur, og gerir hann margt vel. Framvindan er hröð, og mér þykir það ágætt því að um spennusögu er að ræða. Þegar best lætur er manni hugsað til klassískra film noir mynda.

Í stuttu máli segir sagan frá Lex (skemmtilegt nafn sem kallast á við ákveðna lögmannsstofu), sem vinnur hjá Veginum, en það fyrirtæki sér um innheimtur og aftökur. Honum líður skiljanlega illa í starfi og á erfitt með að réttlæta fyrir sér það sem hann gerir. Eitt mál fær á hann, eitthvað í því fær ekki staðist að hans mati og þegar hann kafar ofan í það opnar hann ormagryfju spillingar og leyndarmála. Það er óþarfi að rekja söguþráðinn eitthvað nánar, en kvíðið engu, það eru fjölbreyttar senur með mörgum ágætlega skrifuðum hasar.

Ég leyfi mér þó að koma með eina athugasemd: Sem lesanda fannst mér erfitt að kyngja því hvers vegna hann fór að rannsaka mál þetta gaumgæfilegar. Þetta var varla í fyrsta sinn sem aftaka fékk á hann, þessu var lýst sem nánast daglegum viðburði í bókinni. Lex er frá upphafi skeptískur gagnvart kerfinu, en sem starfsmaður Vegarins til margra ára finnst manni það skrítið. Til þess að komast inn í Veginn þarf að sækjast eftir því, og fara í gegnum mikla þjálfun. Nútímalesanda hryllir augljóslega við jafn óréttlátu réttarkerfi og lýst er í bókinni, og því þarf lítið til að sannfæra okkur, en betra hefði verið að sjá Lex smám saman missa trúna á því og hafa það skýrara hvers vegna hann rannsakar morðið á Prímus Vikt og syni hans. Bókin er betur skrifuð en flestir íslenskir reyfarar en engu að síður mætti vera betri krókur. Manni leiðist alls ekki að lesa um afdrif Lex, þvert á móti lifir maður sig auðveldlega inn í söguheiminn, en persónusköpunin á bæði honum og Orkus hefði mát vera dýpri. (Að mínu mati). Það er ekki alltaf ljóst hvers vegna persónur gera það sem þær gera að öðru leyti en að það sé nauðsynlegt fyrir framvinduna.

Einar tekur skemmtilegan vinkil á pælingar um skuldsetningu og innheimtu. Fjölmiðlamenn hafa skiljanlega gert smá mat úr bakgrunn hans sem starfsmaður í fjármálaheiminum, en það er líka hættulegt að gera of mikið úr því. Einar er fyrst og fremst höfundur sem lifir og hrærist í íslensku samfélagi eins og við hin sem skrifum á Íslandi, þess vegna er skiljanlegt að kreppu- og skuldsetningartal hafi áhrif á hann. Pælingar um eignarhald, mátt stórfyrirtækja og græðginnar er eitt af því sem gerir bókina betri en meðal reyfarann.

Að því sögðu þá er sagan spennandi, heimurinn sannfærandi og ég hef trú á því að flestir íslenskir glæpasagna og furðusagnalesendur hefðu gaman af þessari bók. Ég mæli því hjartanlega með henni.

Snæbjörn Brynjarsson, janúar 2013


Furðusöguárið 2012

Ég held, að árið sem brátt rennur sitt skeið á enda hafi verið allgott fyrir furðusagnabókmenntir hérlendis. Bæði komu út fjölmargar íslenskar furðusögur sem og þýðingar, en einnig var haldið sérstakt málþing um furðusöguna í lok nóvember, sem og hefur furðusagan fengið sífellt meiri athygli fjölmiðla.

Mér telst til að 12 hreinræktaðar íslenskar furðusögur hafi komið út á árinu, þá bæði í prenti og sem rafbækur. 

Steinskrípin - Gunnar Theodór Eggertsson
Spádómurinn - Hildur Knútsdóttir
Hrafnsauga - Kjartan Yngvi Björnsson & Snæbjörn Brynjarsson
Þoka - Þorsteinn Mar
Rökkurhæðir 3: Kristófer - Birgitta Elín Hassel & Marta Hlín Magnadóttir
Rökkurhæðir 4: Ófriður - Birgitta Elín Hassel & Marta Hlín Magnadóttir
Ógnarmáni - Elí Freysson
Saga Eftirlifenda: Heljarþröm - Emil Hjörvar Petersen
Orrustan um Fold - Davíð Þór Jónsson
Blendingurinn - Hildur Margrétardóttir
Sagan um Santýrinn - Friðrik Þór Gestsson
Útburður - Stefán Birgir Stefánsson

Einnig voru nokkrar furðusögur endurútgefnar sem rafbækur, t.d. Lína Descret og smásagnasafnið Myrkfælni. Eins er spurning hvort beri að flokka sögur á borð við Kulda, Húsið og Ég man þig til furðusagna, þó ekki leiki vafi á að sögurnar innihalda hver fyrir sig einkenni furðusagna (þá einkum hryllingssagna), þá hefur þeim hins vegar ekki verið haldið á lofti sem slíkum, heldur sem spennutryllum eða sálfræðilegum spennusögum. 

Ég held að uppskera ársins sé í það heila glæsileg. Efstu þrjár sögurnar á listanum fengu allar glimrandi góðar umsagnir í fjölmiðlum og margar aðrar sögur hafa einnig fengið jákvæða dóma. Furðusagan er enn að slíta barnsskónum hérlendis og losna undan viðjum enskra hefða. Þessar bækur eru góður vísir að því sem koma skal og óhætt er að segja, að nú vori fyrir íslensku furðusögunni. 

 


Ógnarmáni

11lmapc.jpgMannkyn má aldrei gleyma að Dauðaherrarnir hafa ekki verið endanlega sigraðir. Þeir bíða bara, eins og þeir hafa ávallt gert. Bíða, og safna kröftum. Bíða, og taka við eiðum frá nýjum þjónum sem vilja gangast myrkrinu á hönd. Bíða þess að aðstæður í mannheimum séu þeim í hag.

Höfundur: Elí Freysson
Úgefandi: Elí Freysson
Form: Rafbók
Lengd: Um 300 bls.

Á síðasta ári kom út furðusagan Meistari hinna blindu eftir Elí Freysson sem fékk ágætar viðtökur. Sögunni var lýst sem myrkri fantasíu. Hið sama gildir um famhald Meistarans, Ógnarmána. Reyndar verður ekki sagt að Ógnarmáni sé beint framhald af Meistaranum, þó svo að í bakgrunni séu sömu illmenni og atburðir, ásamt nokkrum persónum sem koma fyrir í báðum sögum. 

Segir hér frá Kody Black, uppgjafahermanni úr Axarhandastríðunum, sem fer um stræti borgarinnar Rauðu rótar, sem er réttnefnt lastabæli. Hann er sannkallaður vigilante, hann hjálpar þeim sem minna mega sín gegn fjölmörgum þjófagengjum borgarinnar, sem eðli málsins samkvæmt hugsa honum mörg hver þegjandi þörfina. Til hans leitar ungur maður, en systir hans er týnd. Upphefst þá mikil leit sem leiðir Kody svo sannarlega í mikla hættu. Fleiri persónur slást í lið með Kody, t.d. Verana og Jeivar. Hjálpast þau að í leitinni en lesendur verða að lesa bókina til að komast að hvernig fer fyrir þeim.  

Sögumaður fylgir Kody nær oftast eftir og er sagan oft þrælspennandi. Um margt minnir frásagnarform sögunnar á þann stíl sem finna má í mörgum fantasíum sem skrifaðar hafa verið í kringum hina ólíku heima hlutverkaspila, t.d. D&D. Þeir sem hafa gaman af því að lesa Robert Jordan, R. A. Salvatore, Margaret Weis og Tracy Hickman ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi í Ógnarmána. 

Myndmál er með ágætum, á köflum hefði ég kosið að fá frekari lýsingu á umhverfi og aðstæðum, en heilt yfir er dregin upp dökk mynd af aðstæðum og persónum, sem helst í stíl við fyrri bókina. 

Að mínu mati eru helstu gallar sögunnar tveir. Annars vegar voru mörg samtöl persóna á milli stirð og tilsvör þeirra svöl úr hófi fram, ef svo mætti að orði komast. Vissulega má færa rök fyrir því að oftlega væru fautar, töffarar og undirheimalýður að ræða saman, og því eðlilegt að mál þeirra litaðist af því. Hins vegar virkaði þetta, því miður, oftar en ekki þveröfugt á mig og mér var farið að þykja þetta tilgerðarlegt. Seinni galli sögunnar felst í alltof mörgum málvillum og slælegum yfirlestri. Ég kom auga á sagnir sem voru rangt persónubeygðar, setningar með afar óskýra merkingu og fjölda innsláttarvillna. Nokkuð sem ég tel að hefði mátt komast hjá með betri prófarkarlestri.

Að göllunum tveimur frátöldum er Ógnarmáni ágætis lesning. Ég tel að saga Ógnarmána sé betri en sú sem finna má í Meistaranum, eða hún höfðar meira til mín.

Niðurstaða: Ágæt saga, en líður fyrir lélegan prófarkarlestur. 

Þorsteinn Mar

 


Fimm þjófar

fimm_thjofar.jpgFimm þjófar er ein af þremur íslensku fantasíunum sem kom út fyrir jólin 2011, en fantasíurnar hafa það allar sameiginlegt að vera fyrsta bók hvers höfundar og byrjun á bókaflokki sem gerist í öðrum heimi.
    
Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég byrjaði að lesa þessa bók en ég ákvað þó að stilla væntingum mínum í hóf, þar sem Fimm Þjófar hafði fengið töluvert minni athygli heldur en Meistari hinna blindu (þó að þriðja fantasían hafi reyndar ekki fengið neina athygli), sem ég hyggst lesa við tækifæri. Það er stutt frá því að segja að Fimm Þjófar fór fram úr mínum villtustu vonum og ef þetta er það sem vænta má frá íslensku fantasíu höfundum þá er björt framtíð framundan.
    
Alvitri sögumaður hentar vel fyrir uppbyggingu sögunnar þar sem skipt er á milli persóna til þess að gefa manni dýpri innsýn í heiminn heldur en sveitapilturinn Atli hefur í byrjun sögunnar. Sagan er því að mörgu leyti vel uppbyggð, örlítið langdregin í byrjun þegar verið er að lýsa öllum staðháttum en þær upplýsingar hjálpa þó til við lestur sögunnar. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir mann til að skilja skipulagið í heiminum. Eftir þennan smáa þröskuld kemst Fimm þjófar á gott á flug og maður getur varla sleppt bókinni fyrr en hún er búin. Heimurinn sem höfundurinn hefur skapað er spennandi blanda af heimum sem við þekkjum. Lyosborg, þar sem mesta sagan fer fram, minnir margt á arabaheiminn enda kölluð Demantur Austursins en Gnýheimur, þaðan sem aðalpersónan hann Atli er frá, minnir á Ísland.
    
Bókin er myndræn, lýsingarnar góðar og samtölin skemmtileg. Ef ég ætti að setja út á eitthvað, þá er það helst að sjónarhornsflakkið gerir það verkum að það erfitt að tengjast persónunum sterkum böndum, sérstaklega honum Atla. En sá galli á þó mest við byrjun sögunnar, því að fljótt fer manni að þykja vænt um fimm þjófana (sem eru reyndar sex, eftir að Atli bætist við) sem allir hafa sinn djöful að draga. Enginn af persónunum er algóð eða alslæm, heldur virðist frekar vera fórnarlömb aðstæða sinna en það er mikill spilling í þessum heimi, mikið bil á milli ríkra og fátækra. Galdrar eru fyrir hina af hærri stéttunum en að sjálfsögðu eru undantekningar á því eins og öðru. Sú undantekning spilar stórt hlutverk í sögunni.
    
Það var athyglisvert að sjá að þó að mikill væri óhugnaðurinn, mikið um limlestingar og slíkt, þá voru persónur sögunnar það vanar honum að hann kom ekkert við þær. Mér fannst þetta áhugavert sérstaklega í ljósi þess hvernig öll umræðan um Meistara hinna blindu hefur verið að hún sé svo blóðug, en Fimm þjófar er alls ekkert minni blóðugri. Hins vegar er ég ekki frá því að það sé meiri óhugnaður í Meistara hinna blindu (eða það sem ég hef lesið úr henni), þar sem óhugnaður fer því eftir upplifun hverrar persónu og þar sem persónurnar í Fimm þjófum eru vanar hvers kyns ofbeldi smitast þetta ónæmi til lesandans. Í staðinn getur maður notið þess að lesa um bardagana en hver bardagi er virkilega myndrænn og skemmtilega skrifaður. Mjög raunsæir, ef svo mætti að orði komast. Aðalpersónan, hann Atli sem í fyrstu virkar sem frekar saklaus sveitapiltur, er í raun árásargjarn af einhverjum sökum og vísbendingar um ástæðurnar fyrir því í bókinni.
    
Bókin endar á svakalegu hengiflugi. Leyndardómar eru smá saman leysast en samt nóg eftir af spurningum fyrir næstu bækur. Lesandinn er afvegaleiddur á köflum en annað hægt er að reikna út. Sagan er því skemmtileg og spennandi, maður sekkur inn í velbyggðan heiminn, gleymir sér í framandleikanum þar sem hvert smáatriði skiptir máli fyrir söguþráðinn. Sagan er í raun blóðug ráðgátusaga, þar sem tveir söguþræðir fléttast saman með nóg af limlestingum og bardögum en líka margt sem vekur mann til umhugsunar um spillingu í okkar heimi. En heimurinn þeirra er með gamalkunnuga spillingu í tengslum við stjórnmál, hórur, kynlíf og dóp. Þannig að þó að fólk hafi ekki gaman að fantasíu er hægt að sjá mörg líkindi við okkar heim, sem í raun á við flestar fantasíur.
    
Bókin hefði vel getað verið lengri en endar engu að síður á mjög góðum stað. Það hefði dregið hana niður hefði hún haldið áfram því að lesandinn verður fyrir vikið æstari í framhald. Þó að orðaforðinn sé kannski þungur fyrir þá sem eru ekki vanari að lesa mikið, en það er mikið um gamlan orðaforða í bland við nútímalegri, bætir söguþráðurinn það upp en flæðið í sögunni er virkilega gott eins og ég hef áður tekið fram. Þrátt fyrir góða íslensku er eitthvað um ásláttarvillur en vonandi fælir það ekki fólk frá þessari skemmtilegu afþreyingu.
    
Það er í raun alger synd hversu lítið hefur farið fyrir þessari bók og vonandi að það komi ekki niðri á útgáfu á framhaldsbókunum. Ég persónulega bíð spennt eftir næstu bók en í millitíðinni ætla ég að halda áfram lesa Meistara hinna blindu. Þetta er bara byrjunin fyrir íslenskar fantasíur.

Rósa Grímsdóttir
September 2012


Þriggja heima saga, Hrafnsauga

hrafnsauga-175x251.jpgNær þúsund ár eru liðin frá því myrkraöldin leið undir lok, þegar vitringarnir sjö komu saman og sigruðu skuggana. Hin myrka tíð hefur að mestu gleymst. En þótt minni manna sé brigðult gleyma hin förnu öfl engu.

Útg: Vaka Helgafell
Form: Prentuð (Harðspjalda)
Lengd: 383 bls.

Skáldsagan Hrafnsauga eftir þá Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson kom út fyrir skemmstu. Fékk bókin Íslensku barnabókaverðlaunin og er ágætlega að þeim verðlaunum komin. Segir frá þeim Ragnari, Breka og Sirju, ungmennum sem eru á sextánda aldursári, þegar sagan hefst. Þau búa í litlu þorpi, Vébakka, og þurfa að takast á við ýmsa óvænta atburði. Í söguna fléttast síðan nokkrar aukapersónur, sem koma aðalpersónunum til hjálpar, t.d. Ukkó og Nanúk, og mismunandi staðir, sem gæða söguna lífi, hver með sínum hætti. Hér er um að ræða furðusögu þar sem heilmikið ferðalag spinnst saman við frásögnina, eins og títt er gert í fantasíum, og fá lesendur að kynnast fjölmörgum ólíkum stöðum á meðan lestrinum stendur. Sækir sagan þannig í brunn sagnabálka á borð við Wheel of Time eftir Robert Jordan, Narníu sögur C. S. Lewis að ógleymdri Hringadróttinssögu J. R. R. Tolkien. 

Hrafnsauga gerist í heimi ekki svo ólíkum okkar, en á öðrum tíma. Þar hafa manneskjur gert sér bústaði, ásamt Köprum, sem eru að hálfu geitur, ef svo mætti að orði komast. Mannfólkið skiptist í nokkrar þjóðir eða flokka, og eru aðalpersónur sögunnar af ætt Jana. Í þessari fyrstu sögu, en reikna má með að þær verði mun fleiri, fá lesendur að kynnast sögu Jana sem og baksögu heimsins. Þannig er sögusviðið vel útfært og nokkur rækt hefur verið lögð við að skapa sem trúverðugasta heimsmynd. Tekst höfundum vel upp þar og fyrir vikið verður sagan öll trúverðugari. 

Persónusköpun er einnig með ágætum. Aðalpersónurnar þrjár hafa hver sín sérkenni og auðvelt er að setja sig í spor þeirra. Ragnar er á sinn hátt burðarás sögunnar, atburðir hennar hverfast um hann og tilvist hans. Hann er munaðarlaus og þarf að takast á við þær tilfinningar sem áralöng höfnun samfélagsins á Vébakka hefur valdið honum. Breki og Sirja gegna einnig hvort sínu hlutverki en innri barátta þeirra er ekki jafn sýnileg og hjá Ragnari. Ferðalagið sem þau takast á hendur er í senn yfir ókunn lönd en um leið þroskaför. Þau gera mistök og þurfa að gjalda þeirra, læra af þeim og komast af. Á ferð sinni takast þau á við óvætti og forynjur sem sækja að þeim. Eru skýr mörk milli hetja og illmenna, en þó er auðvelt að sjá hvað rekur hverja persónu áfram og finna til með þeim, jafnvel þeim illu.

Eins og áður segir þá heimsmynd sögunnar skýr og lifandi. Hafa höfundar lagst í mikla vinnu við að finna heiti og orð yfir þær hugmyndir sem vilja koma áleiðis. Sú vinna hefur svo sannarlega skilað sér, því það veitir sögunni meiri trúverðugleika ásamt því að gera orðkynngi hennar fjölbreyttara og skemmtilegra. Helsti galli sögunnar er textavinnsla hennar. Mig grunar að ef höfundar hefðu haft eða gefið sér meiri tíma til þess að gera textann meitlaðri, þá hefði þessi frábæra saga orðið að mínu mati á pari við mörg helstu verk fantasíunnar. Hugsanlega má skrifa eitthvað af textavinnslunni á yfirlesara og ritstjóra. 

Í heildina er Hrafnsauga virkilega skemmtileg saga og vel að verðlaununum komin. Hún er auðlesin og frásögnin heldur lesanda sínum við efnið allt frá upphafi til enda og maður vill meira. Að lokum ber að geta þess að hönnun og umbúnaður er almennt til fyrirmyndar.  

Þorsteinn Mar
Nóvember 2012

 

Rýnandi þekkir höfunda.


Myrkfælni

coverfin.jpgÍ bókinni Myrkfælni eftir Þorstein Mar er að finna ellefu smásögur sem allar teljast hryllings eða draugasögur.  Þorsteinn er hér kyrfilega að feta í fótspor Bandaríska rithöfundarins H. P. Lovecraft, og í minna mæli Edgar Allan Poe. Þetta er þó ekki endilega höfundinum til hróss, því þó  Lovecraft hafi átti góðar hugmyndir og teljist óneitanlega brautryðjandi, þá telst hann ekki til færari rithöfunda sem Bandaríkin hafa alið. Þorsteinn Mar sýnir þó í þessu safni smásagna að hann hefur gríðargott ímyndunarafl og skrifar vel þegar hann nær að fjarlæga sig frá Lovecraft.

Fyrsta sagan ein og sér er til að mynda pökkuð af góðum hugmyndum og klassískum hryllingi. Smásagnaformið er henni þó í raun hamlandi þar sem sagan, sem er áhugaverð, virkar snubbótt. Mikið nær væri að hafa tekið hana úr safninu og unnið meira með hana, því úr henni mætti gera fínustu nóvellu eða jafnvel skáldsögu. Lýsingar á staðháttum skrifar Þorsteinn Mar vel, og maður fær raunverulega tilfinningu fyrir drunganum og eymdinni sem hann reynir að skapa. Hann er ekki hræddur að prófa sig áfram og leyfir hugmyndafluginu að teyma sig áfram í sögunum.

Bestu sögurnar eru, að mínu mati, Mýsnar í kjallaranum, Einar og Svefnfriður. Í Mýsnar í kjallaranum eru tveir sálfræðinemar að rannsaka drauma og komast að því að alzheimerlyf gera þeim kleift að sjá drauma sína skýrar. Sagan er áhugaverð, framvinda hennar spennandi og ekki laust við að mig hafi klæjað í andlitið að lestri loknum. Sömuleiðis er sagan Einar líkleg til að ræna lesendur svefni. Einar er sú saga sem mest er tengd íslenskri saganhefð, en í henni þarf að safna saman mönnum til að kveða niður draug. Í henni sleppur Þorsteinn líka hvað mest úr greipum Lovecraft og sagan er þægilegri og auðveldari aflestrar en aðrar.

Tvennir gallar einkenna sögur Þorsteins; persónusköpun og samræður. Persónur eru lítið annað en nöfnin; lesendanum er í raun alveg sama um þær, og manni finnst maður aldrei eiga neitt í þeim. Það þýðir þó ekki að sögurnar missi marks. Það er nefninlega þannig að margar sögurnar er óþægilegt að lesa (einmitt á þann hátt sem höfundur vonast eftir) og ég var stundum þakklátur því að sólin setjist ekki á þessum árstíma. Samræður eru oftar en ekki einræður sem spanna málsgreinar og stundum heilu blaðsíðurnar. Allir tala eins, engin persónueinkenni er að finna og lítill munur er á samtölum og sjálfum frásögnunum. Sagan Marbendill, sísta saga bókarinnar, er kyrfilega Lovecraft, og í raun svo mikið að hún telst það sem kallast „fan-fiction“. Safnið væri sterkara ef henni hefði einfaldlega verið sleppt.

Þorsteinn Mar á hrós skilið fyrir að hafa farið í að gefa þessar sögur út sjálfur, hann má vera ánægður með sitt. Þó það sé mikil klisja þegar rætt er um nýja höfunda þá ætla ég samt að kasta eftirfarandi fram: Þorsteinn Mar er hugmyndaríkur og efnilegur höfundur sem á framtíðina fyrir sér. Myrkfælni hefði líklega hrifið mig meira ef ég hefið lesið sögurnar þegar ég var yngri eða ef ég hefði ekki nú þegar lesið sögur Lovecraft í þaula. Líklegt þykir mér þó að flestir lesendur taki ekki einu sinni eftir Lovecraft-isma Þorsteins, og láti það ekki hafa áhrif á sig. Ef þú hefur gaman að hryllingsmyndum, þá hefuru gaman af þessu safni.

Myrkfælni er fullkominn í sumarbústaðinn, sérstaklega þegar fer að hausta og mýsnar fara að reyna að koma sér aftur inn. Það má grípa í hana og lesa eina og eina sögu, auk þess sem þær eru tímalausar og því á bókin eftir að eldast vel. Forðist bara að lesa hana ein.

- Jóhann Þórsson
Bókaumfjöllunin var upphaflega birt á Rithringur.is

 

Rýnandi þekkir höfund.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband