11.11.2012 | 15:06
Fimm þjófar
Fimm þjófar er ein af þremur íslensku fantasíunum sem kom út fyrir jólin 2011, en fantasíurnar hafa það allar sameiginlegt að vera fyrsta bók hvers höfundar og byrjun á bókaflokki sem gerist í öðrum heimi.
Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég byrjaði að lesa þessa bók en ég ákvað þó að stilla væntingum mínum í hóf, þar sem Fimm Þjófar hafði fengið töluvert minni athygli heldur en Meistari hinna blindu (þó að þriðja fantasían hafi reyndar ekki fengið neina athygli), sem ég hyggst lesa við tækifæri. Það er stutt frá því að segja að Fimm Þjófar fór fram úr mínum villtustu vonum og ef þetta er það sem vænta má frá íslensku fantasíu höfundum þá er björt framtíð framundan.
Alvitri sögumaður hentar vel fyrir uppbyggingu sögunnar þar sem skipt er á milli persóna til þess að gefa manni dýpri innsýn í heiminn heldur en sveitapilturinn Atli hefur í byrjun sögunnar. Sagan er því að mörgu leyti vel uppbyggð, örlítið langdregin í byrjun þegar verið er að lýsa öllum staðháttum en þær upplýsingar hjálpa þó til við lestur sögunnar. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir mann til að skilja skipulagið í heiminum. Eftir þennan smáa þröskuld kemst Fimm þjófar á gott á flug og maður getur varla sleppt bókinni fyrr en hún er búin. Heimurinn sem höfundurinn hefur skapað er spennandi blanda af heimum sem við þekkjum. Lyosborg, þar sem mesta sagan fer fram, minnir margt á arabaheiminn enda kölluð Demantur Austursins en Gnýheimur, þaðan sem aðalpersónan hann Atli er frá, minnir á Ísland.
Bókin er myndræn, lýsingarnar góðar og samtölin skemmtileg. Ef ég ætti að setja út á eitthvað, þá er það helst að sjónarhornsflakkið gerir það verkum að það erfitt að tengjast persónunum sterkum böndum, sérstaklega honum Atla. En sá galli á þó mest við byrjun sögunnar, því að fljótt fer manni að þykja vænt um fimm þjófana (sem eru reyndar sex, eftir að Atli bætist við) sem allir hafa sinn djöful að draga. Enginn af persónunum er algóð eða alslæm, heldur virðist frekar vera fórnarlömb aðstæða sinna en það er mikill spilling í þessum heimi, mikið bil á milli ríkra og fátækra. Galdrar eru fyrir hina af hærri stéttunum en að sjálfsögðu eru undantekningar á því eins og öðru. Sú undantekning spilar stórt hlutverk í sögunni.
Það var athyglisvert að sjá að þó að mikill væri óhugnaðurinn, mikið um limlestingar og slíkt, þá voru persónur sögunnar það vanar honum að hann kom ekkert við þær. Mér fannst þetta áhugavert sérstaklega í ljósi þess hvernig öll umræðan um Meistara hinna blindu hefur verið að hún sé svo blóðug, en Fimm þjófar er alls ekkert minni blóðugri. Hins vegar er ég ekki frá því að það sé meiri óhugnaður í Meistara hinna blindu (eða það sem ég hef lesið úr henni), þar sem óhugnaður fer því eftir upplifun hverrar persónu og þar sem persónurnar í Fimm þjófum eru vanar hvers kyns ofbeldi smitast þetta ónæmi til lesandans. Í staðinn getur maður notið þess að lesa um bardagana en hver bardagi er virkilega myndrænn og skemmtilega skrifaður. Mjög raunsæir, ef svo mætti að orði komast. Aðalpersónan, hann Atli sem í fyrstu virkar sem frekar saklaus sveitapiltur, er í raun árásargjarn af einhverjum sökum og vísbendingar um ástæðurnar fyrir því í bókinni.
Bókin endar á svakalegu hengiflugi. Leyndardómar eru smá saman leysast en samt nóg eftir af spurningum fyrir næstu bækur. Lesandinn er afvegaleiddur á köflum en annað hægt er að reikna út. Sagan er því skemmtileg og spennandi, maður sekkur inn í velbyggðan heiminn, gleymir sér í framandleikanum þar sem hvert smáatriði skiptir máli fyrir söguþráðinn. Sagan er í raun blóðug ráðgátusaga, þar sem tveir söguþræðir fléttast saman með nóg af limlestingum og bardögum en líka margt sem vekur mann til umhugsunar um spillingu í okkar heimi. En heimurinn þeirra er með gamalkunnuga spillingu í tengslum við stjórnmál, hórur, kynlíf og dóp. Þannig að þó að fólk hafi ekki gaman að fantasíu er hægt að sjá mörg líkindi við okkar heim, sem í raun á við flestar fantasíur.
Bókin hefði vel getað verið lengri en endar engu að síður á mjög góðum stað. Það hefði dregið hana niður hefði hún haldið áfram því að lesandinn verður fyrir vikið æstari í framhald. Þó að orðaforðinn sé kannski þungur fyrir þá sem eru ekki vanari að lesa mikið, en það er mikið um gamlan orðaforða í bland við nútímalegri, bætir söguþráðurinn það upp en flæðið í sögunni er virkilega gott eins og ég hef áður tekið fram. Þrátt fyrir góða íslensku er eitthvað um ásláttarvillur en vonandi fælir það ekki fólk frá þessari skemmtilegu afþreyingu.
Það er í raun alger synd hversu lítið hefur farið fyrir þessari bók og vonandi að það komi ekki niðri á útgáfu á framhaldsbókunum. Ég persónulega bíð spennt eftir næstu bók en í millitíðinni ætla ég að halda áfram lesa Meistara hinna blindu. Þetta er bara byrjunin fyrir íslenskar fantasíur.
Rósa Grímsdóttir
September 2012
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2012 | 14:23
Þriggja heima saga, Hrafnsauga
Nær þúsund ár eru liðin frá því myrkraöldin leið undir lok, þegar vitringarnir sjö komu saman og sigruðu skuggana. Hin myrka tíð hefur að mestu gleymst. En þótt minni manna sé brigðult gleyma hin förnu öfl engu.
Útg: Vaka Helgafell
Form: Prentuð (Harðspjalda)
Lengd: 383 bls.
Skáldsagan Hrafnsauga eftir þá Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson kom út fyrir skemmstu. Fékk bókin Íslensku barnabókaverðlaunin og er ágætlega að þeim verðlaunum komin. Segir frá þeim Ragnari, Breka og Sirju, ungmennum sem eru á sextánda aldursári, þegar sagan hefst. Þau búa í litlu þorpi, Vébakka, og þurfa að takast á við ýmsa óvænta atburði. Í söguna fléttast síðan nokkrar aukapersónur, sem koma aðalpersónunum til hjálpar, t.d. Ukkó og Nanúk, og mismunandi staðir, sem gæða söguna lífi, hver með sínum hætti. Hér er um að ræða furðusögu þar sem heilmikið ferðalag spinnst saman við frásögnina, eins og títt er gert í fantasíum, og fá lesendur að kynnast fjölmörgum ólíkum stöðum á meðan lestrinum stendur. Sækir sagan þannig í brunn sagnabálka á borð við Wheel of Time eftir Robert Jordan, Narníu sögur C. S. Lewis að ógleymdri Hringadróttinssögu J. R. R. Tolkien.
Hrafnsauga gerist í heimi ekki svo ólíkum okkar, en á öðrum tíma. Þar hafa manneskjur gert sér bústaði, ásamt Köprum, sem eru að hálfu geitur, ef svo mætti að orði komast. Mannfólkið skiptist í nokkrar þjóðir eða flokka, og eru aðalpersónur sögunnar af ætt Jana. Í þessari fyrstu sögu, en reikna má með að þær verði mun fleiri, fá lesendur að kynnast sögu Jana sem og baksögu heimsins. Þannig er sögusviðið vel útfært og nokkur rækt hefur verið lögð við að skapa sem trúverðugasta heimsmynd. Tekst höfundum vel upp þar og fyrir vikið verður sagan öll trúverðugari.
Persónusköpun er einnig með ágætum. Aðalpersónurnar þrjár hafa hver sín sérkenni og auðvelt er að setja sig í spor þeirra. Ragnar er á sinn hátt burðarás sögunnar, atburðir hennar hverfast um hann og tilvist hans. Hann er munaðarlaus og þarf að takast á við þær tilfinningar sem áralöng höfnun samfélagsins á Vébakka hefur valdið honum. Breki og Sirja gegna einnig hvort sínu hlutverki en innri barátta þeirra er ekki jafn sýnileg og hjá Ragnari. Ferðalagið sem þau takast á hendur er í senn yfir ókunn lönd en um leið þroskaför. Þau gera mistök og þurfa að gjalda þeirra, læra af þeim og komast af. Á ferð sinni takast þau á við óvætti og forynjur sem sækja að þeim. Eru skýr mörk milli hetja og illmenna, en þó er auðvelt að sjá hvað rekur hverja persónu áfram og finna til með þeim, jafnvel þeim illu.
Eins og áður segir þá heimsmynd sögunnar skýr og lifandi. Hafa höfundar lagst í mikla vinnu við að finna heiti og orð yfir þær hugmyndir sem vilja koma áleiðis. Sú vinna hefur svo sannarlega skilað sér, því það veitir sögunni meiri trúverðugleika ásamt því að gera orðkynngi hennar fjölbreyttara og skemmtilegra. Helsti galli sögunnar er textavinnsla hennar. Mig grunar að ef höfundar hefðu haft eða gefið sér meiri tíma til þess að gera textann meitlaðri, þá hefði þessi frábæra saga orðið að mínu mati á pari við mörg helstu verk fantasíunnar. Hugsanlega má skrifa eitthvað af textavinnslunni á yfirlesara og ritstjóra.
Í heildina er Hrafnsauga virkilega skemmtileg saga og vel að verðlaununum komin. Hún er auðlesin og frásögnin heldur lesanda sínum við efnið allt frá upphafi til enda og maður vill meira. Að lokum ber að geta þess að hönnun og umbúnaður er almennt til fyrirmyndar.
Þorsteinn Mar
Nóvember 2012
Rýnandi þekkir höfunda.
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2012 | 11:11
Myrkfælni
Í bókinni Myrkfælni eftir Þorstein Mar er að finna ellefu smásögur sem allar teljast hryllings eða draugasögur. Þorsteinn er hér kyrfilega að feta í fótspor Bandaríska rithöfundarins H. P. Lovecraft, og í minna mæli Edgar Allan Poe. Þetta er þó ekki endilega höfundinum til hróss, því þó Lovecraft hafi átti góðar hugmyndir og teljist óneitanlega brautryðjandi, þá telst hann ekki til færari rithöfunda sem Bandaríkin hafa alið. Þorsteinn Mar sýnir þó í þessu safni smásagna að hann hefur gríðargott ímyndunarafl og skrifar vel þegar hann nær að fjarlæga sig frá Lovecraft.
Fyrsta sagan ein og sér er til að mynda pökkuð af góðum hugmyndum og klassískum hryllingi. Smásagnaformið er henni þó í raun hamlandi þar sem sagan, sem er áhugaverð, virkar snubbótt. Mikið nær væri að hafa tekið hana úr safninu og unnið meira með hana, því úr henni mætti gera fínustu nóvellu eða jafnvel skáldsögu. Lýsingar á staðháttum skrifar Þorsteinn Mar vel, og maður fær raunverulega tilfinningu fyrir drunganum og eymdinni sem hann reynir að skapa. Hann er ekki hræddur að prófa sig áfram og leyfir hugmyndafluginu að teyma sig áfram í sögunum.
Bestu sögurnar eru, að mínu mati, Mýsnar í kjallaranum, Einar og Svefnfriður. Í Mýsnar í kjallaranum eru tveir sálfræðinemar að rannsaka drauma og komast að því að alzheimerlyf gera þeim kleift að sjá drauma sína skýrar. Sagan er áhugaverð, framvinda hennar spennandi og ekki laust við að mig hafi klæjað í andlitið að lestri loknum. Sömuleiðis er sagan Einar líkleg til að ræna lesendur svefni. Einar er sú saga sem mest er tengd íslenskri saganhefð, en í henni þarf að safna saman mönnum til að kveða niður draug. Í henni sleppur Þorsteinn líka hvað mest úr greipum Lovecraft og sagan er þægilegri og auðveldari aflestrar en aðrar.
Tvennir gallar einkenna sögur Þorsteins; persónusköpun og samræður. Persónur eru lítið annað en nöfnin; lesendanum er í raun alveg sama um þær, og manni finnst maður aldrei eiga neitt í þeim. Það þýðir þó ekki að sögurnar missi marks. Það er nefninlega þannig að margar sögurnar er óþægilegt að lesa (einmitt á þann hátt sem höfundur vonast eftir) og ég var stundum þakklátur því að sólin setjist ekki á þessum árstíma. Samræður eru oftar en ekki einræður sem spanna málsgreinar og stundum heilu blaðsíðurnar. Allir tala eins, engin persónueinkenni er að finna og lítill munur er á samtölum og sjálfum frásögnunum. Sagan Marbendill, sísta saga bókarinnar, er kyrfilega Lovecraft, og í raun svo mikið að hún telst það sem kallast fan-fiction. Safnið væri sterkara ef henni hefði einfaldlega verið sleppt.
Þorsteinn Mar á hrós skilið fyrir að hafa farið í að gefa þessar sögur út sjálfur, hann má vera ánægður með sitt. Þó það sé mikil klisja þegar rætt er um nýja höfunda þá ætla ég samt að kasta eftirfarandi fram: Þorsteinn Mar er hugmyndaríkur og efnilegur höfundur sem á framtíðina fyrir sér. Myrkfælni hefði líklega hrifið mig meira ef ég hefið lesið sögurnar þegar ég var yngri eða ef ég hefði ekki nú þegar lesið sögur Lovecraft í þaula. Líklegt þykir mér þó að flestir lesendur taki ekki einu sinni eftir Lovecraft-isma Þorsteins, og láti það ekki hafa áhrif á sig. Ef þú hefur gaman að hryllingsmyndum, þá hefuru gaman af þessu safni.
Myrkfælni er fullkominn í sumarbústaðinn, sérstaklega þegar fer að hausta og mýsnar fara að reyna að koma sér aftur inn. Það má grípa í hana og lesa eina og eina sögu, auk þess sem þær eru tímalausar og því á bókin eftir að eldast vel. Forðist bara að lesa hana ein.
- Jóhann Þórsson
Bókaumfjöllunin var upphaflega birt á Rithringur.is
Rýnandi þekkir höfund.
Bækur | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)