Furðusöguárið 2012

Ég held, að árið sem brátt rennur sitt skeið á enda hafi verið allgott fyrir furðusagnabókmenntir hérlendis. Bæði komu út fjölmargar íslenskar furðusögur sem og þýðingar, en einnig var haldið sérstakt málþing um furðusöguna í lok nóvember, sem og hefur furðusagan fengið sífellt meiri athygli fjölmiðla.

Mér telst til að 12 hreinræktaðar íslenskar furðusögur hafi komið út á árinu, þá bæði í prenti og sem rafbækur. 

Steinskrípin - Gunnar Theodór Eggertsson
Spádómurinn - Hildur Knútsdóttir
Hrafnsauga - Kjartan Yngvi Björnsson & Snæbjörn Brynjarsson
Þoka - Þorsteinn Mar
Rökkurhæðir 3: Kristófer - Birgitta Elín Hassel & Marta Hlín Magnadóttir
Rökkurhæðir 4: Ófriður - Birgitta Elín Hassel & Marta Hlín Magnadóttir
Ógnarmáni - Elí Freysson
Saga Eftirlifenda: Heljarþröm - Emil Hjörvar Petersen
Orrustan um Fold - Davíð Þór Jónsson
Blendingurinn - Hildur Margrétardóttir
Sagan um Santýrinn - Friðrik Þór Gestsson
Útburður - Stefán Birgir Stefánsson

Einnig voru nokkrar furðusögur endurútgefnar sem rafbækur, t.d. Lína Descret og smásagnasafnið Myrkfælni. Eins er spurning hvort beri að flokka sögur á borð við Kulda, Húsið og Ég man þig til furðusagna, þó ekki leiki vafi á að sögurnar innihalda hver fyrir sig einkenni furðusagna (þá einkum hryllingssagna), þá hefur þeim hins vegar ekki verið haldið á lofti sem slíkum, heldur sem spennutryllum eða sálfræðilegum spennusögum. 

Ég held að uppskera ársins sé í það heila glæsileg. Efstu þrjár sögurnar á listanum fengu allar glimrandi góðar umsagnir í fjölmiðlum og margar aðrar sögur hafa einnig fengið jákvæða dóma. Furðusagan er enn að slíta barnsskónum hérlendis og losna undan viðjum enskra hefða. Þessar bækur eru góður vísir að því sem koma skal og óhætt er að segja, að nú vori fyrir íslensku furðusögunni. 

 


Ógnarmáni

11lmapc.jpgMannkyn má aldrei gleyma að Dauðaherrarnir hafa ekki verið endanlega sigraðir. Þeir bíða bara, eins og þeir hafa ávallt gert. Bíða, og safna kröftum. Bíða, og taka við eiðum frá nýjum þjónum sem vilja gangast myrkrinu á hönd. Bíða þess að aðstæður í mannheimum séu þeim í hag.

Höfundur: Elí Freysson
Úgefandi: Elí Freysson
Form: Rafbók
Lengd: Um 300 bls.

Á síðasta ári kom út furðusagan Meistari hinna blindu eftir Elí Freysson sem fékk ágætar viðtökur. Sögunni var lýst sem myrkri fantasíu. Hið sama gildir um famhald Meistarans, Ógnarmána. Reyndar verður ekki sagt að Ógnarmáni sé beint framhald af Meistaranum, þó svo að í bakgrunni séu sömu illmenni og atburðir, ásamt nokkrum persónum sem koma fyrir í báðum sögum. 

Segir hér frá Kody Black, uppgjafahermanni úr Axarhandastríðunum, sem fer um stræti borgarinnar Rauðu rótar, sem er réttnefnt lastabæli. Hann er sannkallaður vigilante, hann hjálpar þeim sem minna mega sín gegn fjölmörgum þjófagengjum borgarinnar, sem eðli málsins samkvæmt hugsa honum mörg hver þegjandi þörfina. Til hans leitar ungur maður, en systir hans er týnd. Upphefst þá mikil leit sem leiðir Kody svo sannarlega í mikla hættu. Fleiri persónur slást í lið með Kody, t.d. Verana og Jeivar. Hjálpast þau að í leitinni en lesendur verða að lesa bókina til að komast að hvernig fer fyrir þeim.  

Sögumaður fylgir Kody nær oftast eftir og er sagan oft þrælspennandi. Um margt minnir frásagnarform sögunnar á þann stíl sem finna má í mörgum fantasíum sem skrifaðar hafa verið í kringum hina ólíku heima hlutverkaspila, t.d. D&D. Þeir sem hafa gaman af því að lesa Robert Jordan, R. A. Salvatore, Margaret Weis og Tracy Hickman ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi í Ógnarmána. 

Myndmál er með ágætum, á köflum hefði ég kosið að fá frekari lýsingu á umhverfi og aðstæðum, en heilt yfir er dregin upp dökk mynd af aðstæðum og persónum, sem helst í stíl við fyrri bókina. 

Að mínu mati eru helstu gallar sögunnar tveir. Annars vegar voru mörg samtöl persóna á milli stirð og tilsvör þeirra svöl úr hófi fram, ef svo mætti að orði komast. Vissulega má færa rök fyrir því að oftlega væru fautar, töffarar og undirheimalýður að ræða saman, og því eðlilegt að mál þeirra litaðist af því. Hins vegar virkaði þetta, því miður, oftar en ekki þveröfugt á mig og mér var farið að þykja þetta tilgerðarlegt. Seinni galli sögunnar felst í alltof mörgum málvillum og slælegum yfirlestri. Ég kom auga á sagnir sem voru rangt persónubeygðar, setningar með afar óskýra merkingu og fjölda innsláttarvillna. Nokkuð sem ég tel að hefði mátt komast hjá með betri prófarkarlestri.

Að göllunum tveimur frátöldum er Ógnarmáni ágætis lesning. Ég tel að saga Ógnarmána sé betri en sú sem finna má í Meistaranum, eða hún höfðar meira til mín.

Niðurstaða: Ágæt saga, en líður fyrir lélegan prófarkarlestur. 

Þorsteinn Mar

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband