Myrkfælni

coverfin.jpgÍ bókinni Myrkfælni eftir Þorstein Mar er að finna ellefu smásögur sem allar teljast hryllings eða draugasögur.  Þorsteinn er hér kyrfilega að feta í fótspor Bandaríska rithöfundarins H. P. Lovecraft, og í minna mæli Edgar Allan Poe. Þetta er þó ekki endilega höfundinum til hróss, því þó  Lovecraft hafi átti góðar hugmyndir og teljist óneitanlega brautryðjandi, þá telst hann ekki til færari rithöfunda sem Bandaríkin hafa alið. Þorsteinn Mar sýnir þó í þessu safni smásagna að hann hefur gríðargott ímyndunarafl og skrifar vel þegar hann nær að fjarlæga sig frá Lovecraft.

Fyrsta sagan ein og sér er til að mynda pökkuð af góðum hugmyndum og klassískum hryllingi. Smásagnaformið er henni þó í raun hamlandi þar sem sagan, sem er áhugaverð, virkar snubbótt. Mikið nær væri að hafa tekið hana úr safninu og unnið meira með hana, því úr henni mætti gera fínustu nóvellu eða jafnvel skáldsögu. Lýsingar á staðháttum skrifar Þorsteinn Mar vel, og maður fær raunverulega tilfinningu fyrir drunganum og eymdinni sem hann reynir að skapa. Hann er ekki hræddur að prófa sig áfram og leyfir hugmyndafluginu að teyma sig áfram í sögunum.

Bestu sögurnar eru, að mínu mati, Mýsnar í kjallaranum, Einar og Svefnfriður. Í Mýsnar í kjallaranum eru tveir sálfræðinemar að rannsaka drauma og komast að því að alzheimerlyf gera þeim kleift að sjá drauma sína skýrar. Sagan er áhugaverð, framvinda hennar spennandi og ekki laust við að mig hafi klæjað í andlitið að lestri loknum. Sömuleiðis er sagan Einar líkleg til að ræna lesendur svefni. Einar er sú saga sem mest er tengd íslenskri saganhefð, en í henni þarf að safna saman mönnum til að kveða niður draug. Í henni sleppur Þorsteinn líka hvað mest úr greipum Lovecraft og sagan er þægilegri og auðveldari aflestrar en aðrar.

Tvennir gallar einkenna sögur Þorsteins; persónusköpun og samræður. Persónur eru lítið annað en nöfnin; lesendanum er í raun alveg sama um þær, og manni finnst maður aldrei eiga neitt í þeim. Það þýðir þó ekki að sögurnar missi marks. Það er nefninlega þannig að margar sögurnar er óþægilegt að lesa (einmitt á þann hátt sem höfundur vonast eftir) og ég var stundum þakklátur því að sólin setjist ekki á þessum árstíma. Samræður eru oftar en ekki einræður sem spanna málsgreinar og stundum heilu blaðsíðurnar. Allir tala eins, engin persónueinkenni er að finna og lítill munur er á samtölum og sjálfum frásögnunum. Sagan Marbendill, sísta saga bókarinnar, er kyrfilega Lovecraft, og í raun svo mikið að hún telst það sem kallast „fan-fiction“. Safnið væri sterkara ef henni hefði einfaldlega verið sleppt.

Þorsteinn Mar á hrós skilið fyrir að hafa farið í að gefa þessar sögur út sjálfur, hann má vera ánægður með sitt. Þó það sé mikil klisja þegar rætt er um nýja höfunda þá ætla ég samt að kasta eftirfarandi fram: Þorsteinn Mar er hugmyndaríkur og efnilegur höfundur sem á framtíðina fyrir sér. Myrkfælni hefði líklega hrifið mig meira ef ég hefið lesið sögurnar þegar ég var yngri eða ef ég hefði ekki nú þegar lesið sögur Lovecraft í þaula. Líklegt þykir mér þó að flestir lesendur taki ekki einu sinni eftir Lovecraft-isma Þorsteins, og láti það ekki hafa áhrif á sig. Ef þú hefur gaman að hryllingsmyndum, þá hefuru gaman af þessu safni.

Myrkfælni er fullkominn í sumarbústaðinn, sérstaklega þegar fer að hausta og mýsnar fara að reyna að koma sér aftur inn. Það má grípa í hana og lesa eina og eina sögu, auk þess sem þær eru tímalausar og því á bókin eftir að eldast vel. Forðist bara að lesa hana ein.

- Jóhann Þórsson
Bókaumfjöllunin var upphaflega birt á Rithringur.is

 

Rýnandi þekkir höfund.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband