Þriggja heima saga, Hrafnsauga

hrafnsauga-175x251.jpgNær þúsund ár eru liðin frá því myrkraöldin leið undir lok, þegar vitringarnir sjö komu saman og sigruðu skuggana. Hin myrka tíð hefur að mestu gleymst. En þótt minni manna sé brigðult gleyma hin förnu öfl engu.

Útg: Vaka Helgafell
Form: Prentuð (Harðspjalda)
Lengd: 383 bls.

Skáldsagan Hrafnsauga eftir þá Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson kom út fyrir skemmstu. Fékk bókin Íslensku barnabókaverðlaunin og er ágætlega að þeim verðlaunum komin. Segir frá þeim Ragnari, Breka og Sirju, ungmennum sem eru á sextánda aldursári, þegar sagan hefst. Þau búa í litlu þorpi, Vébakka, og þurfa að takast á við ýmsa óvænta atburði. Í söguna fléttast síðan nokkrar aukapersónur, sem koma aðalpersónunum til hjálpar, t.d. Ukkó og Nanúk, og mismunandi staðir, sem gæða söguna lífi, hver með sínum hætti. Hér er um að ræða furðusögu þar sem heilmikið ferðalag spinnst saman við frásögnina, eins og títt er gert í fantasíum, og fá lesendur að kynnast fjölmörgum ólíkum stöðum á meðan lestrinum stendur. Sækir sagan þannig í brunn sagnabálka á borð við Wheel of Time eftir Robert Jordan, Narníu sögur C. S. Lewis að ógleymdri Hringadróttinssögu J. R. R. Tolkien. 

Hrafnsauga gerist í heimi ekki svo ólíkum okkar, en á öðrum tíma. Þar hafa manneskjur gert sér bústaði, ásamt Köprum, sem eru að hálfu geitur, ef svo mætti að orði komast. Mannfólkið skiptist í nokkrar þjóðir eða flokka, og eru aðalpersónur sögunnar af ætt Jana. Í þessari fyrstu sögu, en reikna má með að þær verði mun fleiri, fá lesendur að kynnast sögu Jana sem og baksögu heimsins. Þannig er sögusviðið vel útfært og nokkur rækt hefur verið lögð við að skapa sem trúverðugasta heimsmynd. Tekst höfundum vel upp þar og fyrir vikið verður sagan öll trúverðugari. 

Persónusköpun er einnig með ágætum. Aðalpersónurnar þrjár hafa hver sín sérkenni og auðvelt er að setja sig í spor þeirra. Ragnar er á sinn hátt burðarás sögunnar, atburðir hennar hverfast um hann og tilvist hans. Hann er munaðarlaus og þarf að takast á við þær tilfinningar sem áralöng höfnun samfélagsins á Vébakka hefur valdið honum. Breki og Sirja gegna einnig hvort sínu hlutverki en innri barátta þeirra er ekki jafn sýnileg og hjá Ragnari. Ferðalagið sem þau takast á hendur er í senn yfir ókunn lönd en um leið þroskaför. Þau gera mistök og þurfa að gjalda þeirra, læra af þeim og komast af. Á ferð sinni takast þau á við óvætti og forynjur sem sækja að þeim. Eru skýr mörk milli hetja og illmenna, en þó er auðvelt að sjá hvað rekur hverja persónu áfram og finna til með þeim, jafnvel þeim illu.

Eins og áður segir þá heimsmynd sögunnar skýr og lifandi. Hafa höfundar lagst í mikla vinnu við að finna heiti og orð yfir þær hugmyndir sem vilja koma áleiðis. Sú vinna hefur svo sannarlega skilað sér, því það veitir sögunni meiri trúverðugleika ásamt því að gera orðkynngi hennar fjölbreyttara og skemmtilegra. Helsti galli sögunnar er textavinnsla hennar. Mig grunar að ef höfundar hefðu haft eða gefið sér meiri tíma til þess að gera textann meitlaðri, þá hefði þessi frábæra saga orðið að mínu mati á pari við mörg helstu verk fantasíunnar. Hugsanlega má skrifa eitthvað af textavinnslunni á yfirlesara og ritstjóra. 

Í heildina er Hrafnsauga virkilega skemmtileg saga og vel að verðlaununum komin. Hún er auðlesin og frásögnin heldur lesanda sínum við efnið allt frá upphafi til enda og maður vill meira. Að lokum ber að geta þess að hönnun og umbúnaður er almennt til fyrirmyndar.  

Þorsteinn Mar
Nóvember 2012

 

Rýnandi þekkir höfunda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband