Færsluflokkur: Bækur

Þriggja heima saga, Hrafnsauga

hrafnsauga-175x251.jpgNær þúsund ár eru liðin frá því myrkraöldin leið undir lok, þegar vitringarnir sjö komu saman og sigruðu skuggana. Hin myrka tíð hefur að mestu gleymst. En þótt minni manna sé brigðult gleyma hin förnu öfl engu.

Útg: Vaka Helgafell
Form: Prentuð (Harðspjalda)
Lengd: 383 bls.

Skáldsagan Hrafnsauga eftir þá Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson kom út fyrir skemmstu. Fékk bókin Íslensku barnabókaverðlaunin og er ágætlega að þeim verðlaunum komin. Segir frá þeim Ragnari, Breka og Sirju, ungmennum sem eru á sextánda aldursári, þegar sagan hefst. Þau búa í litlu þorpi, Vébakka, og þurfa að takast á við ýmsa óvænta atburði. Í söguna fléttast síðan nokkrar aukapersónur, sem koma aðalpersónunum til hjálpar, t.d. Ukkó og Nanúk, og mismunandi staðir, sem gæða söguna lífi, hver með sínum hætti. Hér er um að ræða furðusögu þar sem heilmikið ferðalag spinnst saman við frásögnina, eins og títt er gert í fantasíum, og fá lesendur að kynnast fjölmörgum ólíkum stöðum á meðan lestrinum stendur. Sækir sagan þannig í brunn sagnabálka á borð við Wheel of Time eftir Robert Jordan, Narníu sögur C. S. Lewis að ógleymdri Hringadróttinssögu J. R. R. Tolkien. 

Hrafnsauga gerist í heimi ekki svo ólíkum okkar, en á öðrum tíma. Þar hafa manneskjur gert sér bústaði, ásamt Köprum, sem eru að hálfu geitur, ef svo mætti að orði komast. Mannfólkið skiptist í nokkrar þjóðir eða flokka, og eru aðalpersónur sögunnar af ætt Jana. Í þessari fyrstu sögu, en reikna má með að þær verði mun fleiri, fá lesendur að kynnast sögu Jana sem og baksögu heimsins. Þannig er sögusviðið vel útfært og nokkur rækt hefur verið lögð við að skapa sem trúverðugasta heimsmynd. Tekst höfundum vel upp þar og fyrir vikið verður sagan öll trúverðugari. 

Persónusköpun er einnig með ágætum. Aðalpersónurnar þrjár hafa hver sín sérkenni og auðvelt er að setja sig í spor þeirra. Ragnar er á sinn hátt burðarás sögunnar, atburðir hennar hverfast um hann og tilvist hans. Hann er munaðarlaus og þarf að takast á við þær tilfinningar sem áralöng höfnun samfélagsins á Vébakka hefur valdið honum. Breki og Sirja gegna einnig hvort sínu hlutverki en innri barátta þeirra er ekki jafn sýnileg og hjá Ragnari. Ferðalagið sem þau takast á hendur er í senn yfir ókunn lönd en um leið þroskaför. Þau gera mistök og þurfa að gjalda þeirra, læra af þeim og komast af. Á ferð sinni takast þau á við óvætti og forynjur sem sækja að þeim. Eru skýr mörk milli hetja og illmenna, en þó er auðvelt að sjá hvað rekur hverja persónu áfram og finna til með þeim, jafnvel þeim illu.

Eins og áður segir þá heimsmynd sögunnar skýr og lifandi. Hafa höfundar lagst í mikla vinnu við að finna heiti og orð yfir þær hugmyndir sem vilja koma áleiðis. Sú vinna hefur svo sannarlega skilað sér, því það veitir sögunni meiri trúverðugleika ásamt því að gera orðkynngi hennar fjölbreyttara og skemmtilegra. Helsti galli sögunnar er textavinnsla hennar. Mig grunar að ef höfundar hefðu haft eða gefið sér meiri tíma til þess að gera textann meitlaðri, þá hefði þessi frábæra saga orðið að mínu mati á pari við mörg helstu verk fantasíunnar. Hugsanlega má skrifa eitthvað af textavinnslunni á yfirlesara og ritstjóra. 

Í heildina er Hrafnsauga virkilega skemmtileg saga og vel að verðlaununum komin. Hún er auðlesin og frásögnin heldur lesanda sínum við efnið allt frá upphafi til enda og maður vill meira. Að lokum ber að geta þess að hönnun og umbúnaður er almennt til fyrirmyndar.  

Þorsteinn Mar
Nóvember 2012

 

Rýnandi þekkir höfunda.


Myrkfælni

coverfin.jpgÍ bókinni Myrkfælni eftir Þorstein Mar er að finna ellefu smásögur sem allar teljast hryllings eða draugasögur.  Þorsteinn er hér kyrfilega að feta í fótspor Bandaríska rithöfundarins H. P. Lovecraft, og í minna mæli Edgar Allan Poe. Þetta er þó ekki endilega höfundinum til hróss, því þó  Lovecraft hafi átti góðar hugmyndir og teljist óneitanlega brautryðjandi, þá telst hann ekki til færari rithöfunda sem Bandaríkin hafa alið. Þorsteinn Mar sýnir þó í þessu safni smásagna að hann hefur gríðargott ímyndunarafl og skrifar vel þegar hann nær að fjarlæga sig frá Lovecraft.

Fyrsta sagan ein og sér er til að mynda pökkuð af góðum hugmyndum og klassískum hryllingi. Smásagnaformið er henni þó í raun hamlandi þar sem sagan, sem er áhugaverð, virkar snubbótt. Mikið nær væri að hafa tekið hana úr safninu og unnið meira með hana, því úr henni mætti gera fínustu nóvellu eða jafnvel skáldsögu. Lýsingar á staðháttum skrifar Þorsteinn Mar vel, og maður fær raunverulega tilfinningu fyrir drunganum og eymdinni sem hann reynir að skapa. Hann er ekki hræddur að prófa sig áfram og leyfir hugmyndafluginu að teyma sig áfram í sögunum.

Bestu sögurnar eru, að mínu mati, Mýsnar í kjallaranum, Einar og Svefnfriður. Í Mýsnar í kjallaranum eru tveir sálfræðinemar að rannsaka drauma og komast að því að alzheimerlyf gera þeim kleift að sjá drauma sína skýrar. Sagan er áhugaverð, framvinda hennar spennandi og ekki laust við að mig hafi klæjað í andlitið að lestri loknum. Sömuleiðis er sagan Einar líkleg til að ræna lesendur svefni. Einar er sú saga sem mest er tengd íslenskri saganhefð, en í henni þarf að safna saman mönnum til að kveða niður draug. Í henni sleppur Þorsteinn líka hvað mest úr greipum Lovecraft og sagan er þægilegri og auðveldari aflestrar en aðrar.

Tvennir gallar einkenna sögur Þorsteins; persónusköpun og samræður. Persónur eru lítið annað en nöfnin; lesendanum er í raun alveg sama um þær, og manni finnst maður aldrei eiga neitt í þeim. Það þýðir þó ekki að sögurnar missi marks. Það er nefninlega þannig að margar sögurnar er óþægilegt að lesa (einmitt á þann hátt sem höfundur vonast eftir) og ég var stundum þakklátur því að sólin setjist ekki á þessum árstíma. Samræður eru oftar en ekki einræður sem spanna málsgreinar og stundum heilu blaðsíðurnar. Allir tala eins, engin persónueinkenni er að finna og lítill munur er á samtölum og sjálfum frásögnunum. Sagan Marbendill, sísta saga bókarinnar, er kyrfilega Lovecraft, og í raun svo mikið að hún telst það sem kallast „fan-fiction“. Safnið væri sterkara ef henni hefði einfaldlega verið sleppt.

Þorsteinn Mar á hrós skilið fyrir að hafa farið í að gefa þessar sögur út sjálfur, hann má vera ánægður með sitt. Þó það sé mikil klisja þegar rætt er um nýja höfunda þá ætla ég samt að kasta eftirfarandi fram: Þorsteinn Mar er hugmyndaríkur og efnilegur höfundur sem á framtíðina fyrir sér. Myrkfælni hefði líklega hrifið mig meira ef ég hefið lesið sögurnar þegar ég var yngri eða ef ég hefði ekki nú þegar lesið sögur Lovecraft í þaula. Líklegt þykir mér þó að flestir lesendur taki ekki einu sinni eftir Lovecraft-isma Þorsteins, og láti það ekki hafa áhrif á sig. Ef þú hefur gaman að hryllingsmyndum, þá hefuru gaman af þessu safni.

Myrkfælni er fullkominn í sumarbústaðinn, sérstaklega þegar fer að hausta og mýsnar fara að reyna að koma sér aftur inn. Það má grípa í hana og lesa eina og eina sögu, auk þess sem þær eru tímalausar og því á bókin eftir að eldast vel. Forðist bara að lesa hana ein.

- Jóhann Þórsson
Bókaumfjöllunin var upphaflega birt á Rithringur.is

 

Rýnandi þekkir höfund.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband