Fimm þjófar

fimm_thjofar.jpgFimm þjófar er ein af þremur íslensku fantasíunum sem kom út fyrir jólin 2011, en fantasíurnar hafa það allar sameiginlegt að vera fyrsta bók hvers höfundar og byrjun á bókaflokki sem gerist í öðrum heimi.
    
Það var því með mikilli tilhlökkun sem ég byrjaði að lesa þessa bók en ég ákvað þó að stilla væntingum mínum í hóf, þar sem Fimm Þjófar hafði fengið töluvert minni athygli heldur en Meistari hinna blindu (þó að þriðja fantasían hafi reyndar ekki fengið neina athygli), sem ég hyggst lesa við tækifæri. Það er stutt frá því að segja að Fimm Þjófar fór fram úr mínum villtustu vonum og ef þetta er það sem vænta má frá íslensku fantasíu höfundum þá er björt framtíð framundan.
    
Alvitri sögumaður hentar vel fyrir uppbyggingu sögunnar þar sem skipt er á milli persóna til þess að gefa manni dýpri innsýn í heiminn heldur en sveitapilturinn Atli hefur í byrjun sögunnar. Sagan er því að mörgu leyti vel uppbyggð, örlítið langdregin í byrjun þegar verið er að lýsa öllum staðháttum en þær upplýsingar hjálpa þó til við lestur sögunnar. Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar fyrir mann til að skilja skipulagið í heiminum. Eftir þennan smáa þröskuld kemst Fimm þjófar á gott á flug og maður getur varla sleppt bókinni fyrr en hún er búin. Heimurinn sem höfundurinn hefur skapað er spennandi blanda af heimum sem við þekkjum. Lyosborg, þar sem mesta sagan fer fram, minnir margt á arabaheiminn enda kölluð Demantur Austursins en Gnýheimur, þaðan sem aðalpersónan hann Atli er frá, minnir á Ísland.
    
Bókin er myndræn, lýsingarnar góðar og samtölin skemmtileg. Ef ég ætti að setja út á eitthvað, þá er það helst að sjónarhornsflakkið gerir það verkum að það erfitt að tengjast persónunum sterkum böndum, sérstaklega honum Atla. En sá galli á þó mest við byrjun sögunnar, því að fljótt fer manni að þykja vænt um fimm þjófana (sem eru reyndar sex, eftir að Atli bætist við) sem allir hafa sinn djöful að draga. Enginn af persónunum er algóð eða alslæm, heldur virðist frekar vera fórnarlömb aðstæða sinna en það er mikill spilling í þessum heimi, mikið bil á milli ríkra og fátækra. Galdrar eru fyrir hina af hærri stéttunum en að sjálfsögðu eru undantekningar á því eins og öðru. Sú undantekning spilar stórt hlutverk í sögunni.
    
Það var athyglisvert að sjá að þó að mikill væri óhugnaðurinn, mikið um limlestingar og slíkt, þá voru persónur sögunnar það vanar honum að hann kom ekkert við þær. Mér fannst þetta áhugavert sérstaklega í ljósi þess hvernig öll umræðan um Meistara hinna blindu hefur verið að hún sé svo blóðug, en Fimm þjófar er alls ekkert minni blóðugri. Hins vegar er ég ekki frá því að það sé meiri óhugnaður í Meistara hinna blindu (eða það sem ég hef lesið úr henni), þar sem óhugnaður fer því eftir upplifun hverrar persónu og þar sem persónurnar í Fimm þjófum eru vanar hvers kyns ofbeldi smitast þetta ónæmi til lesandans. Í staðinn getur maður notið þess að lesa um bardagana en hver bardagi er virkilega myndrænn og skemmtilega skrifaður. Mjög raunsæir, ef svo mætti að orði komast. Aðalpersónan, hann Atli sem í fyrstu virkar sem frekar saklaus sveitapiltur, er í raun árásargjarn af einhverjum sökum og vísbendingar um ástæðurnar fyrir því í bókinni.
    
Bókin endar á svakalegu hengiflugi. Leyndardómar eru smá saman leysast en samt nóg eftir af spurningum fyrir næstu bækur. Lesandinn er afvegaleiddur á köflum en annað hægt er að reikna út. Sagan er því skemmtileg og spennandi, maður sekkur inn í velbyggðan heiminn, gleymir sér í framandleikanum þar sem hvert smáatriði skiptir máli fyrir söguþráðinn. Sagan er í raun blóðug ráðgátusaga, þar sem tveir söguþræðir fléttast saman með nóg af limlestingum og bardögum en líka margt sem vekur mann til umhugsunar um spillingu í okkar heimi. En heimurinn þeirra er með gamalkunnuga spillingu í tengslum við stjórnmál, hórur, kynlíf og dóp. Þannig að þó að fólk hafi ekki gaman að fantasíu er hægt að sjá mörg líkindi við okkar heim, sem í raun á við flestar fantasíur.
    
Bókin hefði vel getað verið lengri en endar engu að síður á mjög góðum stað. Það hefði dregið hana niður hefði hún haldið áfram því að lesandinn verður fyrir vikið æstari í framhald. Þó að orðaforðinn sé kannski þungur fyrir þá sem eru ekki vanari að lesa mikið, en það er mikið um gamlan orðaforða í bland við nútímalegri, bætir söguþráðurinn það upp en flæðið í sögunni er virkilega gott eins og ég hef áður tekið fram. Þrátt fyrir góða íslensku er eitthvað um ásláttarvillur en vonandi fælir það ekki fólk frá þessari skemmtilegu afþreyingu.
    
Það er í raun alger synd hversu lítið hefur farið fyrir þessari bók og vonandi að það komi ekki niðri á útgáfu á framhaldsbókunum. Ég persónulega bíð spennt eftir næstu bók en í millitíðinni ætla ég að halda áfram lesa Meistara hinna blindu. Þetta er bara byrjunin fyrir íslenskar fantasíur.

Rósa Grímsdóttir
September 2012


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband