Orrustan um Fold

orrustan_um_fold.jpgFyrir jólin kom út vísindaskáldsagan Orrustan um Fold eftir Davíð Þór Jónsson, guðfræðing, spekúlant, grínista og fyrrum ritstjóra. Sagan, sem er 1p. frásögn, segir frá þeim Kolbeini, Auði og Gissuri sem þurfa að fást við utanaðkomandi verur á tunglinu Fold sem er í kringum gasrisan Ímu, en þar hefur þjóðin búið í 47 ár. Um leið og geimverur, sem einna helst líkjast köngulóm, koma á tunglið er það samfélagsmynstur sem þjóðin, sem hefst við í borginni Fræið og var áður geimskip hennar, hefur stuðst við í molum sökum spillingar og þurfa aðalpersónurnar einnig að takast á við það. 

Í þessari sögu er þannig að finna nokkuð ákveðna samfélagsrýni og væri áhugavert að lesa úttekt bókmenntafræðinga á táknmáli sögunnar. Samfélagið er afar lagskipt og spilling ræður ríkjum í efri lögunum, en íbúar þar líta mjög niður á lýðinn. Allt er notað til að friðþæga neðri lögin, listir og miðlar óspart notaðir og ljóst að Davíð hefur lagt umtalsverða hugsun í sköpun þessa samfélags. Hin utanaðkomandi ógn reynist ekki öll þar sem hún er séð og endurspeglar kannski þannig þá ógn sem er í samfélagsskipaninni sjálfri og óttann sem virðist gegnumsýra allt.

Davíð er með góðan orðaforða og notar hann óspart. Hann er óhræddur við að grípa til gamalla orða og mig grunar að einhverjir lesendur gætu þurft að grípa til orðabóka við lestur sögunnar, t.d. er ég ekki viss um að allir lesendur viti hvað kögunarhóll sé. Þannig fannst mér stundum, þó gaman væri að sjá gömul orð notuð, sem verið væri að fara fjallabaksleiðir þegar þjóðleiðir væru færar. 

Þessi saga er heilmikil frásögn, það er oft farið um víðan völl og meira sagt en sýnt. Ég saknaði þess oft að geta ekki fengið skýrari mynd af landslagi, persónum, staðháttum og jafnvel Fræinu sjálfu. Oftar en ekki er það eina sem skilur að persónur nöfn þeirra og fyrir mig er það einfaldlega ekki nóg. Ég stóð mig oft að því að fletta fram og aftur til að átta mig betur á hvernig persónur tengdust í sögunni, því mér fannst ég ekki hafa nægilega skýra mynd af þeim. Furðuverur koma auk þess fyrir og þeim er aðeins lýst á fremur takmarkaðan máta, nokkuð sem ég tel að ritstjóri hefði getað aðstoðað Davíð með og dregið betur fram hjá honum. 

Stærsti galli sögunnar er þó hvernig leyst er úr flækjunum. Ég gat ekki komist hjá því að upplifa að þar hefði komið guðinn úr vélinni og komið þannig aðalpersónunum til bjargar í lokin, þar stígur allt í einu persóna inn á sögusviðið sem ekki hefur verið kynnt áður og gerir hetjunum kleift að sigrast á óvinum sínum. Ég verð að viðurkenna, að það olli mér nokkrum vonbrigðum. 

Heilt yfir ágætlega stílaður texti en skorti upp á myndmál og persónusköpun hefði mátt vera sterkari. Eins var endirinn svekkjandi. Gott efni og flott samfélagsrýni. 

Þorsteinn Mar, mars 2013


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband