Hvítir múrar borgarinnar

hvtucover9.jpgHvað ætti maður að kalla Hvíta Múra Borgarinnar eftir Einar Leif Nielsen? Þessi fyrsta bók höfundar sem kom út hjá Rúnatý fyrir stuttu síðan er æsispennandi framtíðartryllir í ætt við „cyberpunk.“ Sagan kallast á við aðrar framtíðardystópíur á borð við 1984 eða „Judge Dredd“ en fjallar þó ekki um alræðisríki heldur frekar um ofur-frjálshyggjuríki framtíðarinnar. Heimsmyndin er skemmtileg, meirihluti fólks býr í „Borginni“, risavaxinni súperborg sem er lokuð af með risavöxnum hvítum múrum. Þar fyrir innan er fólk flokkað í hverfi eftir efnahagslegri getu, ríkasta hverfið nr. 10 er með glæsivillum þar sem hver gluggi og borð er sjónvarpstæki, og vinnufólk eða vélmenni sjá um að viðhalda glæsistörfum og sækja viský handa húsbóndanum. Í hverfi 1 búa svo þeir allra fátækustu, þeir sem vinna í verksmiðjunum en þar eru reglulega óeirðir sem kæfðar eru niður á harkalegan máta. Loks má nefna Dalinn en þar búa þeir sem eru útlægir frá borginni í næstum miðaldalegu samfélagi, með drottningum og hirðum.

Ég var hrifinn af grunn hugmyndafræði bókarinnar. Í heimi bókarinnar er einungis tvenns konar refsing fyrir glæpi, annars vegar dauðadómur og hins vegar sekt. Þeir sem ekki geta greitt sektina eru dæmdir til dauða, en hafi maður nægan pening getur maður greitt skaðabætur og komist upp með morð. Þetta hljómar fjarstæðukennt en ef við hugsum aftur til víkingatímans þá er þetta ekki eins óraunhæft og maður kynni að ætla. Í íslendingasögunum greiða sögupersónur oft bætur fyrir víg, og hefndir fara yfirleitt af stað þegar fólk telur bæturnar of lágar. Mismikið er greitt eftir hvort það er bóndi, höfðingi eða þræll.

Þannig virkar veröldin sem Einar bregður upp fyrir okkur, og gerir hann margt vel. Framvindan er hröð, og mér þykir það ágætt því að um spennusögu er að ræða. Þegar best lætur er manni hugsað til klassískra film noir mynda.

Í stuttu máli segir sagan frá Lex (skemmtilegt nafn sem kallast á við ákveðna lögmannsstofu), sem vinnur hjá Veginum, en það fyrirtæki sér um innheimtur og aftökur. Honum líður skiljanlega illa í starfi og á erfitt með að réttlæta fyrir sér það sem hann gerir. Eitt mál fær á hann, eitthvað í því fær ekki staðist að hans mati og þegar hann kafar ofan í það opnar hann ormagryfju spillingar og leyndarmála. Það er óþarfi að rekja söguþráðinn eitthvað nánar, en kvíðið engu, það eru fjölbreyttar senur með mörgum ágætlega skrifuðum hasar.

Ég leyfi mér þó að koma með eina athugasemd: Sem lesanda fannst mér erfitt að kyngja því hvers vegna hann fór að rannsaka mál þetta gaumgæfilegar. Þetta var varla í fyrsta sinn sem aftaka fékk á hann, þessu var lýst sem nánast daglegum viðburði í bókinni. Lex er frá upphafi skeptískur gagnvart kerfinu, en sem starfsmaður Vegarins til margra ára finnst manni það skrítið. Til þess að komast inn í Veginn þarf að sækjast eftir því, og fara í gegnum mikla þjálfun. Nútímalesanda hryllir augljóslega við jafn óréttlátu réttarkerfi og lýst er í bókinni, og því þarf lítið til að sannfæra okkur, en betra hefði verið að sjá Lex smám saman missa trúna á því og hafa það skýrara hvers vegna hann rannsakar morðið á Prímus Vikt og syni hans. Bókin er betur skrifuð en flestir íslenskir reyfarar en engu að síður mætti vera betri krókur. Manni leiðist alls ekki að lesa um afdrif Lex, þvert á móti lifir maður sig auðveldlega inn í söguheiminn, en persónusköpunin á bæði honum og Orkus hefði mát vera dýpri. (Að mínu mati). Það er ekki alltaf ljóst hvers vegna persónur gera það sem þær gera að öðru leyti en að það sé nauðsynlegt fyrir framvinduna.

Einar tekur skemmtilegan vinkil á pælingar um skuldsetningu og innheimtu. Fjölmiðlamenn hafa skiljanlega gert smá mat úr bakgrunn hans sem starfsmaður í fjármálaheiminum, en það er líka hættulegt að gera of mikið úr því. Einar er fyrst og fremst höfundur sem lifir og hrærist í íslensku samfélagi eins og við hin sem skrifum á Íslandi, þess vegna er skiljanlegt að kreppu- og skuldsetningartal hafi áhrif á hann. Pælingar um eignarhald, mátt stórfyrirtækja og græðginnar er eitt af því sem gerir bókina betri en meðal reyfarann.

Að því sögðu þá er sagan spennandi, heimurinn sannfærandi og ég hef trú á því að flestir íslenskir glæpasagna og furðusagnalesendur hefðu gaman af þessari bók. Ég mæli því hjartanlega með henni.

Snæbjörn Brynjarsson, janúar 2013


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband