Furðusöguárið 2012

Ég held, að árið sem brátt rennur sitt skeið á enda hafi verið allgott fyrir furðusagnabókmenntir hérlendis. Bæði komu út fjölmargar íslenskar furðusögur sem og þýðingar, en einnig var haldið sérstakt málþing um furðusöguna í lok nóvember, sem og hefur furðusagan fengið sífellt meiri athygli fjölmiðla.

Mér telst til að 12 hreinræktaðar íslenskar furðusögur hafi komið út á árinu, þá bæði í prenti og sem rafbækur. 

Steinskrípin - Gunnar Theodór Eggertsson
Spádómurinn - Hildur Knútsdóttir
Hrafnsauga - Kjartan Yngvi Björnsson & Snæbjörn Brynjarsson
Þoka - Þorsteinn Mar
Rökkurhæðir 3: Kristófer - Birgitta Elín Hassel & Marta Hlín Magnadóttir
Rökkurhæðir 4: Ófriður - Birgitta Elín Hassel & Marta Hlín Magnadóttir
Ógnarmáni - Elí Freysson
Saga Eftirlifenda: Heljarþröm - Emil Hjörvar Petersen
Orrustan um Fold - Davíð Þór Jónsson
Blendingurinn - Hildur Margrétardóttir
Sagan um Santýrinn - Friðrik Þór Gestsson
Útburður - Stefán Birgir Stefánsson

Einnig voru nokkrar furðusögur endurútgefnar sem rafbækur, t.d. Lína Descret og smásagnasafnið Myrkfælni. Eins er spurning hvort beri að flokka sögur á borð við Kulda, Húsið og Ég man þig til furðusagna, þó ekki leiki vafi á að sögurnar innihalda hver fyrir sig einkenni furðusagna (þá einkum hryllingssagna), þá hefur þeim hins vegar ekki verið haldið á lofti sem slíkum, heldur sem spennutryllum eða sálfræðilegum spennusögum. 

Ég held að uppskera ársins sé í það heila glæsileg. Efstu þrjár sögurnar á listanum fengu allar glimrandi góðar umsagnir í fjölmiðlum og margar aðrar sögur hafa einnig fengið jákvæða dóma. Furðusagan er enn að slíta barnsskónum hérlendis og losna undan viðjum enskra hefða. Þessar bækur eru góður vísir að því sem koma skal og óhætt er að segja, að nú vori fyrir íslensku furðusögunni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband